Fræðsluefni um offitu

  • Offita er langvinnur efnaskiptasjúkdómur sem einkennist af aukinni fitusöfnun í líkamanum.
    Offita getur leitt til margvíslegra sjúkdóma, svo sem hjarta- og æðasjúkdóma,
    efnaskiptasjúkdóma, nokkrar algengar tegundir krabbameins, slitgigt og getur
    valdið skerðingum á lífsgæðum.

  • Alþjóðaheilbriðgðismálastofnunin (WHO) skilgreinir offitu samkvæmt líkamsþyngdarstuðli (LÞS),
    þyngd í kílógrömmum deilt með hæð í metrum í öðru veldi (kg/m2) eða BMI (Body mass index).
    Einstaklingur með LÞS/BMI milli 25 og 29,9 kg/m2 telst vera í yfirþyngd en þegar LÞS/BMI er komið
    yfir 30 kg/m2 telst einstaklingur vera með offitu.

    Gallinn við að notast við LÞS/BMI er að hann gefur ekki réttar upplýsingar um samsetningu á til dæmis
    fitumassa og vöðvamassa. Einstaklingur með mikinn vöðvamassa getur verið með háan LÞS/BMI þó
    að hann sé ekki með offitu og einstaklingur með lágan vöðvamassa en háan fitumassa getur verið með
    sjúkdómin offitu þrátt fyrir að LÞS/BMI sé undir 30.

  • Tíðni offitu hefur aukist um allan heim á síðustu áratugum.
    Samkvæmt Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni hefur offita í heiminum tvöfaldast
    á síðustu 20 árum. Ísland er hér engin undantekning. Í rannsókn frá Lýðheilsustöð
    sýnir að líkamsþyngdarstuðull Íslendinga hefur hækkað undanfarið og að nú séu
    fleiri sem hafa of háan líkamsþyngdarstuðul en áður.

    Upplýsingar frá WHO frá árinu 2008

    Meira en 1400 miljónir (1,4 milljarða) fullorðinna, 20 ára og eldri, voru of þungir.
    Þar af voru yfir 200 milljónir karla og næstum 300 milljónir kvenna með offitu.
    Í heildina voru meira en 10% fullorðinna í heiminum með offitu.
    Að minnsta kosti 2,8 milljónir fullorðinna deyja á hverju ári í tengslum við offitu.

  • Offita er flókið samspil umhverfisþátta, erfða og hegðunar.
    Orsakir offitu eru því flóknar og margþættar. Í grunninn verður ofgnótt
    fituvefjar í líkamanum vegna langvinns orkuójafnvægis. Flókið samspil
    líffræðilegra þátta, erfða, atferlis, félagslegra- og umhverfisþátta taka
    þátt í stjórnun orkujafnvægis og söfnunar orkuforða. Sú hraða breyting
    sem hefur orðið á algengi offitu síðastliðin 30 ár er líklega afleiðing
    menningarlegra og umhverfistengdra þátta. Meingerð offitu er margslungin.
    Í meginatriðum koma fram breytingar á fituvefnum og í fitufrumunum sjálfum
    þar sem framleiðsla á boðefnum þeirra raskast. Þetta eru margvíslegar
    breytingar og koma inn á mörg boðefna- og hormónakerfi ásamt því að hafa
    áhrif á bólguferla. Breytingar verða einnig á boðefnum frá meltingarveginum
    þannig að stjórnun á matarlyst í heilanum raskast.
    Þarmaflóran breytist þannig að þau jákvæðu áhrif sem hún getur haft á
    efnaskiptin raskast.

  • Afleiðingar offitu eru margvíslegar. Lífsgæði versna til muna bæði með tilliti
    til heilsufars og félagslegra þátta. Dánartíðni einstaklings með offitu er aukin
    miðað við þá sem eru í kjörþyngd. Offita eykur líkur á öðrum sjúkdómum og
    hér eru upplýsingar frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) um þá
    áhættu sem fylgt getur því að vera með offitu. Þessar upplýsingar miðast við
    að líkamsþyngdarstuðull (BMI) sé 30 eða hærri. Listinn er ekki tæmandi.

    Þunglyndi

    Kvíða

    Átröskunum

    Sykursýki, tegund 2

    Insúlínviðnám

    Kæfisvefn

    Háþrýstingur

    Hækkaðar blóðfitur

    Kransæðasjúkdómar

    Slitgigt í hnjám

    Stoðkerfisverkir

    Legslímukrabbamein

    Gallblöðrusjúkdómar

    Ristilkrabbamein

    Brjóstakrabbamein eftir tíðahvörf

    Þvagsýrugigt

    Fjölblöðru-eggjastokksheilkenni (PCOS)

    Óeðlileg hormónaframleiðsla í æxlunarfærum

    Minnkuð frjósemi

  • Sýnt hefur verið fram á að fitufordómar hafa neikvæð áhrif á heilsu,
    hegðun og félagslega hegðun hjá einstaklingum sem eru of þungir.
    Jafnframt stuðla fordómarnir að lélegu sjálfsmati, þunglyndi, kvíða,
    minni líkamsrækt, tilfinningalegu áti og því að einstaklingurinn borðar
    ekki fyrir framan aðra heldur í laumi.
    Þeir sem upplifa fitufordóma eru seinni að sækja sér aðstoð ef eitthvað
    bjátar á, upplifa einmanaleika sem leiðir til þess að þeir draga sig tilbaka
    félagslega og eiga í erfiðleikum í nýjum samböndum.
    Fordómar varðandi þyngd og sú trú að allir eiga að vera grannir,
    geta ýtt undir neikvæða sjálfsímynd og óánægju með líkamann og þar
    af leiðandi óheilbrigt samband við mat eins og lotuofát og lotugræðgi.

AÐ UNDIRBÚA SIG FYRIR LÆKNAVIÐTAL.

HVERNIG GETUM VIÐ TEKIST Á VIÐ YTRI OG INNRI FORDÓMA

Á heimasíðu World Obesity er hægt að skoða stöðu Íslands í málefnum tengdum offitu.

Í janúar 2020 gaf Embætti landlæknis út Klínískar leiðbeiningar um meðferð fullorðinna einstaklinga með offitu